Ráðherra og forseti deila um ítalska fótboltann

Lið eins og Juventus og Inter skapa miklar tekjur fyrir …
Lið eins og Juventus og Inter skapa miklar tekjur fyrir ítalskt þjóðfélag, að sögn Paolo Dal Pino. AFP

Ítalski íþróttamálaráðherrann hefur sent fótboltafélögunum í landinu harðorð skilaboð og fengið það óþvegið til baka frá forseta ítölsku A-deildarinnar.

Ráðherrann, Vincenzo Spadafora, sagði í viðtali við La Repubblica að hann hefði litla samúð með stóru fótboltafélögunum og þau ættu erfiða tíma fyrir höndum. Hann kvaðst ekki vilja rétta þeim hjálparhönd og betra væri að verja 400 milljónum evra í grasrótarstarf í öðrum íþróttagreinum.

Paolo Dal Pino, forseti A-deildarinnar, svaraði ráðherranum um hæl á vef deildarinnar. „Meira en 32 milljónir Ítala fylgjast með fótboltanum sem er risastór fyrir þjóðfélagið og fjárhag þess. Fótboltinn sér meira en 300 þúsund manns fyrir atvinnu og leggur fram meira en eitt prósent af þjóðarframleiðslunni,“ skrifaði Dal Pino.

Hann benti jafnframt á að A-deildin legði árlega fram um þrjár milljarða evra til neðri deildanna í landinu og greiddi auk þess meira en einn milljarð evra í skatt til þjóðfélagsins á ári. Enn fremur nytu fleiri íþróttagreinar en fótboltinn styrkja frá deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert