Landsliðsmaður tekur á sig launalækkun

Ragnar Sigurðsson gekk til liðs við FCK á nýjan leik …
Ragnar Sigurðsson gekk til liðs við FCK á nýjan leik í janúar á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins FCK, hefur þurft að taka á sig 20% launalækkun vegna kórónuveirufaraldsins sem ný geisar en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Ragnar gekk til liðs við FCK á frjálsri sölu í janúar á þessu ári.

Ragnar skrifaði undir samning við FCK sem gildir út tímabilið og því gæti vel farið svo að varnarmaðurinn verði samningslaus á miðju tímabili. FIFA vinnur hins vegar að því að samningar þeirra leikmanna, sem eiga að renna út í sumar, framlengist þangað til tímabilið klárast en allt deildir í Evrópu liggja nú niðri nema í Hvíta-Rússlandi þar sem áfram er spilað.

Ragnar hefur ekki ennþá spilað fyrir FCK í deildinni á tímabilinu en hann hefur byrjað tvo leiki í Evrópudeildinni, báða gegn Celtic, í 32-liða úrslitum keppninnar. Leikmenn FCK eru þeir fyrstu í Danmörku til þess að taka á sig launalækkun en liðið er í öðru sæti dönsku úrvalssdeildarinnar með 50 stig, 12 stigum minna en topplið Midtjylland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert