„Reyni að vera eins mikið heima og ég get“

Elías Már Ómarsson hefur spilað vel fyrir 1. deildarlið Excelsior …
Elías Már Ómarsson hefur spilað vel fyrir 1. deildarlið Excelsior á þessari leiktíð. Ljósmynd/Excelsior

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson var í miklu stuði með Excelsior í hollensku B-deildinni í knattspyrnu áður en öllum leikjum var frestað vegna kórónuveirunnar. Var hann búinn að skora níu mörk í síðustu átta leikjum og fjórar tvennur á skömmum tíma. Alls hefur hann skorað 12 mörk í 28 leikjum á tímabilinu, en liðið var í sjöunda sæti deildarinnar og í baráttu um að fara upp um deild þegar veiran skall á. Líkt og á Íslandi er samkomubann í Hollandi og æfir liðið ekki.

„Það er ekkert æft núna og það eru komnar reglur um að ekki megi fleiri en þrjár manneskjur koma saman, nema þær búi saman. Ef fleiri en þrír koma saman geturðu fengið sekt. Þetta eru stórfurðulegir tímar,“ sagði Elías við Morgunblaðið. Framherjinn býr með kærustu og tveimur ungum sonum og er mikið heima um þessar mundir þó svo að ekki sé búið að setja útgöngubann í Hollandi. „Ég er mikið með strákunum mínum og reyni að fara út að ganga við og við en annars reyni ég að vera eins mikið heima og ég get til öryggis.“

Búið er að fresta öllum fótbolta í Hollandi til 1. júní og hafa einhverjir hollenskir miðlar greint frá því að afar ólíklegt sé að yfirstandandi tímabil verði klárað. Ekki er búið að aflýsa tímabilinu en Elíasi finnst líklegt að sú verði niðurstaðan. „Ég er farinn að halda það. Ég hef verið að spyrjast fyrir um þetta og mér heyrist á flestum að þeim finnst líklegast að tímabilið verði flautað af. Það er ekki komin endaleg niðurstaða samt sem áður,“ sagði Elías.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert