UEFA miðar við að tímabilinu ljúki 3. ágúst

Hollendingar eiga eftir að leika tæpar níu umferðir af sinni …
Hollendingar eiga eftir að leika tæpar níu umferðir af sinni deildakeppni þar sem Ajax og AZ Alkmaar eru jöfn og efst. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, miðar nú við að deildakeppnum hinna ýmsu Evrópulanda verði lokið 3. ágúst en ekki við 30. júní eins og áður hafði verið markmiðið.

Þetta kemur fram á heimasíðu hollenska knattspyrnusambandsins, í kjölfar fundar UEFA með aðildarþjóðunum 55 í dag. 

„Það hefur verið gefið til kynna að öllum mótum í Evrópu skuli vera lokið fyrir 3. ágúst. Þetta þýðir að keppni þarf að komast aftur í gang seinnihluta júnímánaðar," segir í tilkynningu hollenska knattspyrnusambandsins.

Þá kemur fram að UEFA og FIFA séu að vinna í málum varðandi framlengingu samninga sem renna út 1. júlí og breytingum á hvenær félagaskiptagluggar séu opnir.

Uppfært:
Formaður danska knattspyrnusambandsins kveðst ekki vita hvaðan kollegar sínir í Hollandi hafi þær upplýsingar að miðað sé við að tímabilunum verði lokið 3. ágúst. Sú dagsetning hafi ekki komið til umræðu á fundinum hjá UEFA í dag.

Uppfært:
UEFA hefur staðfest við Sky Sports að engin ákveðin dagsetning hafi verið gefin upp á fundinum í dag enda sé það ekki hægt enn sem komið er þar sem ekki sé vitað hvenær deildirnar geti farið aftur af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert