Fótboltinn verður öðruvísi eftir veiruna

Gianni Infantino forseti FIFA.
Gianni Infantino forseti FIFA. AFP

Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, segir að fótboltinn verði allt öðruvísi en áður þegar hann fer loksins af stað á nýjan leik eftir að kórónuveiran hefur gengið skeið sitt á enda.

„Fótboltinn snýr aftur og þegar það gerist munum við fagna því að martröðin sé að baki,“ sagði Infantino í viðtali við ítölsku fréttastofuna ANSA.

„Við höfum samt örugglega báðir áttað okkur á einu, fótboltinn sem við sjáum þegar veiran er að baki verður allt öðruvísi, innihaldsríkari, þjóðfélagsvænni og sterkari stuðningsaðili, bæði hvað varðar einstök lönd og á heimsvísu — hrokinn verður minni og umhyggjan meiri. Við verðum betri sjálfir, mannlegri og kunnum betur að meta þau gildi sem skipta mestu máli,“ sagði Infantino.

Í síðustu viku sagði hann í viðtali við Gazzetta dello Sport á Ítalíu að það væri kominn tími til að taka skref til baka og endurbyggja íþróttina því dagskrá hennar væri orðin of þétt og fjárráðin væru komin í heldur örfárra útvalinna félaga. Mótum gæti fækkað en þau orðið áhugaverðari, leikir yrði færri til að gæta að heilbrigði leikmannanna.

mbl.is