Las um meistaratitilinn í símanum

Lið Club Brugge verður belgískur meistari 2020.
Lið Club Brugge verður belgískur meistari 2020. AFP

Fyrirliði belgíska knattspyrnuliðsins Club Brugge komst að því í dag að hann yrði belgískur meistari þegar hann las frétt um það í símanum hjá sér.

Stjórn belgísku deildakeppninnar ákvað í dag að keppnistímabilinu væri lokið og staðan í A-deildinni væri lokastaða tímabilsins. Með þeim fyrirvara þó að það þarf að samþykkja á formlegum fundi stjórnarinnar 15. apríl.

„Ég las þetta í símanum og síðan hringdi stjórnarformaðurinn í mig. Auðvitað er maður ánægður því við áttum virkilega gott tímabil. Þetta kom mér samt í opna skjöldu núna en við verðskuldum titilinn svo sannarlega. Við höfðum þó vonast til þess að vinna hann á vellinum svo hægt væri að fagna eftir lokaflaut dómarans. Þetta er klárlega furðulegasti titill sem ég hef unnið og vonandi upplifi ég þetta ekki aftur því þetta eru vondar aðstæður,“ sagði Ruud Vormer fyrirliði Club Brugge við Sporza í Belgíu.

Club Brugge var með fimmtán stiga forskot á Gent þegar eftir var að spila ellefu umferðir. Hann hefur nú þrisvar orðið belgískur meistari með félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert