Leikmenn samþykktu 70 prósent niðurskurð

Leikmenn Atlético Madrid koma til móts við starfsfólk félagsins.
Leikmenn Atlético Madrid koma til móts við starfsfólk félagsins. AFP

Leikmenn spænska knattspyrnuliðsins Atlético Madrid hafa fetað í fótspor kollega sinna hjá Barcelona og samþykkt allt að 70 prósent lækkun launa á meðan kórónuveiran lamar Spán illilega.

Dæmið hefur verið sett upp á tvo vegu, eftir því hvernig keppnistímabilinu mun ljúka sem enn er allt í óvissu, en hvorttveggja miðast við að annað starfsfólk félagsins fái óskert laun á meðan ástandið ríkir.

Annars vegar verður um að ræða 70 prósent lækkun sem allir leikmenn karla- og kvennaliða félagsins ásamt B-liði karla og þjálfarateymi taka á sig á meðan neyðarástandið ríkir á Spáni og allt liggur niðri.

Hins vegar myndu leikmenn aðalliðs karla og stjórnendur félagsins taka að sér að greiða 50 prósent af launum annars starfsliðs félagsins.

mbl.is