Skýr skilaboð frá UEFA um að ljúka allri keppni

Aleksander Ceferin forseti UEFA og hans fólk hefur sent frá …
Aleksander Ceferin forseti UEFA og hans fólk hefur sent frá sér skýr skilaboð. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur sent aðildarþjóðum sínum skýr skilaboð um að ljúka sínum keppnistímabilum þegar öruggt sé að gera það eftir að kórónuveiran hafi gengið yfir en lýsa ekki yfir að þeim sé lokið.

Markmið UEFA er að allar vetrardeildir Evrópu ljúki keppni í júlí og ágúst og stefnan hefur verið sett á að keppni í Meistaradeild og Evrópudeild UEFA verði lokið í ágúst.

Fréttamaður Sky Sports kveðst hafa séð umrætt bréf sem sent hafi verið til allra 55 aðildarþjóðanna með þessum boðskap. Þar séu þær hvattar til að sýna samstöðu og ganga í takt um leið og tekist sé á við þau vandamál sem farsóttin hafi leitt af sér.

Úrslit ráðist inni á vellinum

„Það hefur gríðarlega þýðingu að jafnvel svona yfirgengilegur atburður eins og þessi farsótt geti ekki komið í veg fyrir að úrslit í okkar mótum ráðist inni á vellinum, samkvæmt settum reglum, og að allir meistaratitlar vinnist samkvæmt úrslitum leikja,“ segir í bréfinu.

„Sem ábyrgir leiðtogar í okkar íþrótt þurfum við að tryggja eins lengi og nokkur möguleiki er að allt fari fram samkvæmt reglum. Við erum sannfærð um að fótboltinn geti hafist á ný eftir nokkra mánuði, samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru af stjórnvöldum, og erum sannfærð um að ákvarðanir um að aflýsa tímabilum séu ekki tímabærar og ekki réttlætanlegar,“ segir ennfremur í bréfinu.

Engin af þjóðunum 55 ræddi um að aflýsa sínum mótum á fjarfundinum sem UEFA hélt með þeim í gærmorgun, samkvæmt Sky Sports. Í dag lögðu hins vegar stjórnarmenn belgísku A-deildarinnar fram tillögu um að aflýsa því sem eftir væri af tímabilinu þar í landi. Í nágrannalandinu Hollandi eru líka háværar raddir um að fara sömu leið og lýsa tímabilinu 2019-20 lokið.

mbl.is