Ekki í Meistaradeildina nema tímabilinu sé lokið

Aleksander Ceferin forseti UEFA undirritar bréfið ásamt Andrea Agnelli og …
Aleksander Ceferin forseti UEFA undirritar bréfið ásamt Andrea Agnelli og Lars-Christer Olsen. AFP

Svo kann að fara að þær Evrópuþjóðir sem ákveða að ljúka ekki sínum tímabilum í fótboltanum með því að spila alla leiki fái ekki keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu næsta vetur.

Eins og fram kom í gærkvöld sendi UEFA frá sér skýr skilaboð um að ljúka ætti öllum deildakeppnum á venjulegan hátt, spila alla leiki, og gera ráð fyrir að ljúka tímabilinu í ágústmánuði eftir hléið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

The Guardian segir að í bréfinu sem sent var á allar 55 Evrópuþjóðirnar komi fram að UEFA áskilji sér rétt til að endurskoða rétt þeirra þjóða sem ekki ljúka tímabilinu til þess að senda lið í Meistaradeild Evrópu.

Bréfið var sent út í gærkvöld, eftir að Belgar höfðu tilkynnt að þeir stefndu að því að hætta keppni á sínu tímabili og úrskurða topplið Club Brugge sem belgískan meistara 2019-20. Ljóst er að Belgar þurfa að endurskoða þá afstöðu.

Undir bréfið skrifa Aleksander Ceferin, forseti UEFA, Andrea Agnelli, formaður sambands evrópskra knattspyrnufélaga, og Lars-Christer Olsson, forseti samtaka deildakeppnanna í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert