Stórstjörnur Madrid á leið til Everton?

Gareth Bale og James Rodríguez eru sagðir vera á óskalista …
Gareth Bale og James Rodríguez eru sagðir vera á óskalista Carlo Ancelotti. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, er staðráðinn í að styrkja leikmannahóp sinn þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður. Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Gareth Bale og James Rodríguez, leikmenn spænska stórliðsins Real Madrid, séu á óskalista ítalska stjórans sem tók við stjórnartaumunum hjá Everton í desember á síðasta ári.

Báðir leikmennirnir eru til sölu en Bale var ansi nálægt því að fara frítt frá Real Madrid síðasta sumar til Jiangsu Suning í kínversku úrvalsdeildina. Bale þénar í kringum 600.000 pund á viku hjá Real Madrid en fá lið í heiminum hafa efni á því að borga svona laun, nema þá félög í kínversku úrvalsdeildinni.

Bale, sem er samningsbundinn Real Madrid til ársins 2022 þyrfti því að taka á sig umtalsverða launalækkun hjá Everton. Rodríguez verður samningslaus sumarið 2021 en hann hefur verið varaskeifa í liðinu síðan Zinedine Zidane tók fyrst við liðinu árið 2016. Rodríguez eyddi síðasta tímabili á láni hjá Bayern München en hann hefur byrjað fjóra leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu.

Ancelotti þekkir báða leikmennina vel en hann stýrði liðinu á árunum 2013 til ársins 2015. Bale og Rodríguez voru báðir lykilmenn undir stjórn Ancelotti sem gerði Real Madrid að bikarmeisturum árið 2014 og þá varð liðið Evrópumeistari undir stjórn Ancelotti tímabilið 2013-2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert