Juventus mun afþakka meistaratitilinn

Leikmenn Juventus
Leikmenn Juventus AFP

Ítalska knattspyrnufélagið mun afþakka meistaratitilinn í knattspyrnu ef ekki verður hægt að klára tímabilið vegna kórónuveirunnar en ekkert hefur verið spilað þar í landi síðan í byrjun mars.

Juventus er á toppi deildarinnar þegar 12 umferðir eru eftir en framkvæmdastjóri deildarinnar, Gabriele Garvina, segir að það væri rangt að úrskurða tímabilið dautt og ómerkt.

„Það væri flókið að hætta bara við tímabilið og gríðarlegt ranglæti,“ sagði Garvina. „Það þyrfti að úthluta Ítalíumeistaratitlinum og mér skilst að forráðamenn Juventus séu ekki hrifnir af slíkri lausn.“

Yfir 13 þúsund manns hafa látið lífið á Ítalíu vegna veirunnar og var knattspyrnudeildunum þar frestað til 13. apríl hið minnsta. Það er þó alveg ljóst að ekki verður hægt að halda áfram svo snemma en Garvina stefnir að því að hefja leik aftur í næsta mánuði.

„Aðalatriðið er að klára tímabilið. Hugmyndin er að byrja aftur 20. maí eða snemma í júní og klára í lok júlí.“

mbl.is