Sjö ár liðin frá glæsimarki Gylfa (myndskeið)

Philipp Degen sækir að Gylfa Þór Sigurðssyni í síðari viðureign …
Philipp Degen sækir að Gylfa Þór Sigurðssyni í síðari viðureign Basel og Tottenham, 11. apríl 2013. GEORGIOS KEFALAS

Það eru akkúrat sjö ár síðan Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsilegt mark í Evrópudeildinni í knattspyrnu og hélt vonum Tottenham á lífi í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Gylfi var á sinni fyrstu leiktíð með Tottenham en hann spilaði 48 leiki og skoraði sjö mörk fyrir liðið þann veturinn. Fjórða apríl 2013 tók Tottenham á móti Basel í fyrri viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum Evrópudeildarinnar á White Hart Lane, þáverandi heimavelli Lundúnaliðsins.

Svissnesku meistararnir komust óvænt í tveggja marka forystu á fyrstu 35 mínútum leiksins en hinn margreyndi framherji Emmanuel Adebayor minnkaði muninn fyrir leikhlé. Snemma í síðari hálfleik jafnaði Gylfi svo metin með bylmingsskoti fyrir utan vítateig, sem fór af varnarmanni og upp í nærhornið.

Leiknum lauk með 2:2-jafntefli, sem og seinni viðureigninni í Basel þar sem heimamenn fóru að lokum áfram eftir vítaspyrnukeppni. Þetta glæsimark Gylfa má sjá í spilaranum hér að neðan en twittersíða Evrópudeildarinnar rifjaði það upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert