Ronaldo sá fyrsti í milljarð

Það er nóg til hjá Cristiano Ronaldo.
Það er nóg til hjá Cristiano Ronaldo. AFP

Þrátt fyrir að taka á sig launalækkun vegna afleiðinga kórónuveirunnar mun Cristiano Ronaldo eiga fyrir salti í grautinn. Mun Ronaldo væntanlega þéna um 91 milljón bandaríkjadollara á árinu. 

Gangi það eftir verður Portúgalinn búinn að þéna samanlagt yfir milljarð bandaríkjadollara á ferlinum, fyrstur knattspyrnumanna. Ronaldo er með himinhá laun hjá Juventus og þá er hann samningsbundinn Nike ásamt fleiri fyrirtækjum og fær fyrir það væna summu. Ronaldo á auk þess vörumerkið CR7. 

Ronaldo yrði þriðji íþróttamaður sögunnar til að þéna sem nemur milljarði bandaríkjadollara á meðan hann er enn við keppni. Kylfingurinn Tiger Woods varð sá fyrsti árið 2009 og hnefaleikamaðurinn Floyd Mayweather náði áfanganum árið 2017. 

mbl.is