Svekkjandi en skiljanleg ákvörðun

Mick McCarthy
Mick McCarthy AFP

„Þetta er gríðarlega svekkjandi en ég skil ákvörðunina engu að síður,“ sagði Mick McCarthy, fráfarandi landsliðsþjálfari Íra í knattspyrnu, við sjónvarpsstöðina FAI TV í gærkvöldi eftir að honum var sagt upp starfi.

McCarthy var samningsbundinn Írum til 31. júlí og átti að stýra liðinu á Evrópumeistaramótinu í sumar, hefði þjóðin komist þangað. Írar eiga að mæta Slóvakíu í undanúr­slit­um um­spils um sæti á EM og Norður-Írum eða Bosn­íu í úr­slit­um.

„Það er búið að fresta umspilinu og ég skil þessa ákvörðun, Stephen átti að taka við í ágúst og því fór þetta svona. Ég óska honum góðs gengis,“ bætti McCarthy við en Stephen Kenny tekur við af honum.

McCarthy stýrði Írum inn á heimsmeistaramótið 2002 og tók svo aftur við landsliðinu í nóvember 2018. Kenny hef­ur þjálfað í heima­land­inu all­an þjálf­ara­fer­il­inn og síðustu ár stýrt U21 landsliði Íra. Þar á und­an þjálfaði hann Dundalk, m.a. á móti FH í Evr­ópu­deild­inni árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert