FIFA slakar á taumnum

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur unnið að því undanfarnar vikur að finna lausn á þeim mikla vanda sem skapast  í knattspyrnuheiminum vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina. The Athletic greinir frá því í dag að FIFA ætli að gefa deildarkeppnum heimsins aukið svigrúm með að klára sínar keppnir þegar tækifæri gefst til.

Það verður því engin pressa á félögin að klára sínar keppnir innan ákveðins tímaramma líkt og hefur verið í umræðunni. Þá hefur vinnuhópur á vegum FIFA reynt að finna lausn á því hvað sé best að gera varðandi félagaskiptaglugginn sem er venjulega opnaður 10. júní á Bretlandi. Opnun félagaskiptagluggans verður hins vegar seinkað vegna faraldursins.

Þá hafa samningar leikmanna, sem renna út um mánaðamótin júní/júlí, einnig verið mikið í umræðunni. The Atletic greinir frá því að hægt verði að framlengja þessa samninga til skamms tíma svo að liðin missi ekki leikmenn frá sér á miðju tímabili en reikna má með því að ekki verði byrjað að spila aftur í Evrópu sem dæmi fyrr en í fyrsta lagi í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert