Framdi sjálfsvíg eftir að hafa greinst með kórónuveiruna

Reims er í fimmta sæti frönsku 1. deildarinnar þegar ellefu …
Reims er í fimmta sæti frönsku 1. deildarinnar þegar ellefu umferðir eru eftir af tímabilinu. Ljósmynd/@AtaqueFutbolero

Mikil sorg ríkir hjá franska knattspyrnufélaginu Reims eftir að læknir félagsins, Bernard Gonzalez, framdi sjálfsvíg eftir að hafa greinst með kórónuveiruna en það eru franskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Gonzalez var sextíu ára gamall en hann hafði verið aðallæknir franska 1. deildar félagsins undanfarin tuttugu ár.

Gonzalez skildi eftir bréf þar sem hann útskýrði ákvörðun sína, innihald þess hefur ekki verið birt samkvæmt Le Parisien. „Hann var læknir félagsins, mikill atvinnumaður og virtur af öllu samfélaginu,“ sagði Arnaud Robinet, bæjarstjóri í Reims, í samtali við fjölmiðla. „Hugur minn er hjá foreldrum hans, eiginkonu og fjölskyldu.“

„Það er ekki hægt að segja neitt annað en að hann hafi verið fórnarlamb kórónuveirunnar. Ég veit að hann skildi eftir bréf þar sem útskýrði gjörðir sínar en ég kýs að hunsa innihald þess,“ bætti bæjarstjórinn við. Alls hafa 92.839 manns greinst með veiruna í Frakklandi og þar af eru 8.078 látnir vegna hennar.

„Ég er algjörlega orðlaus eftir þessar hræðilegu fréttir sem mér bárust á dögunum,“ sagði Jean-Pierre Caillot, forseti Reims, í samtali við fjölmiðla. „Þessar fréttir eru rýtingur í hjartað. Það eru fáir sem hafa þjónað félaginu jafn vel og hann. Hann var ekki bara læknirinn minn heldur góður vinur,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert