Líklegt að PSG haldi stórstjörnunum

Kylian Mbappé í leik gegn Íslandi. Þrátt fyrir ungan aldur …
Kylian Mbappé í leik gegn Íslandi. Þrátt fyrir ungan aldur er hann orðinn einn besti leikmaður heims. AFP

Samkvæmt umfjöllun í Frakklandi er ekki búist við öðru en að Paris St. Germain haldi stórstjörnunum Kylian Mbappé og Neymar á næsta keppnistímabili.

Íþróttablaðið þekkta L'Equipe fjallar um málið og bendir á að félagaskiptamarkaðurinn verði ekki líflegur á milli tímabila vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar.

Óljóst er hvenær knattspyrnulið í Evrópu taka upp þráðinn að nýju og svo gæti farið að leikið yrði í sumar og síðan verði stutt hlé og þá hefst keppnistímabilið 2020-2021.

Mbappé hefur reyndar ekki gefið annað í skyn en að hann verði áfram hjá PSG þrátt fyrir áhuga ýmissa stórliða. Meiri óvissa hefur verið varðandi Neymar og meðal annars verið fluttar fréttir af því að Lionel Messi hafi farið fram á að Barcelona festi aftur kaup á Neymar.

Samkvæmt heimildum franska blaðsins eru forráðamenn PSG nú mjög bjartsýnir á að halda sínum þekktustu köppum en markmið félagsins er leynt og ljóst að vinna Meistaradeild Evrópu.

Ljóst er að heimsfaraldurinn hefur áhrif á knattspyrnulið víða í álfunni. Afar sterkt fjárhagslegt bakland fylgir hins vegar eigendum PSG og mögulega hafa menn minni áhyggjur þar á bæ en víða annars staðar. 

mbl.is