Rauk úr prófi eftir landsliðsval

Ari Leifsson á að baki 46 leiki í efstu deild …
Ari Leifsson á að baki 46 leiki í efstu deild með Fylki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlutirnir hafa gerst ansi hratt hjá knattspyrnumanninum Ara Leifssyni. Ari, sem er 21 árs gamall, lék fyrsta A-landsleik sinn í janúar í 1:0-sigri Íslands gegn El Salvador í vináttulandsleik í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Ari var í byrjunarliði Íslands og lék allan leikinn í hjarta varnarinnar, en hann er uppalinn hjá Fylki í Árbænum.

Í byrjun mars keypti svo norska úrvalsdeildarfélagið Strømsgodset varnarmanninn unga af Fylki. Ari skrifaði undir þriggja ára samning í Noregi en nokkrum dögum eftir að hann kom út til Noregs var öllu skellt í lás í landinu vegna kórónuveirunnar og samkomubann tók gildi.

Mikið breyst á stuttum tíma

„Ég kom til Noregs í byrjun mars og náði tveimur góðum æfingavikum með liðinu áður en öllu var frestað vegna kórónuveirunnar,“ sagði Ari í samtali við Morgunblaðið í gær. „Satt best að segja átti ég alls ekki von á því að ég myndi fara í atvinnumennsku á þessum tímapunkti. Ég ætlaði mér alltaf að spila með Fylki í sumar, sýna mig og sanna, og svo bara skoða mín mál að tímabili loknu. Hlutirnir gerðust hins vegar mjög hratt eftir að ég frétti af áhuga Strømsgodset og fyrir það er ég þakklátur. Ég var á öðru ári í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík en þurfti allt í einu að kveðja allt og lífið hefur því breyst ansi mikið á stuttum tíma.“

„Ég náði einum æfingaleik með liðinu áður en samkomubannið tók gildi, en það var gegn Vålerenga. Ég kom inn á sem varamaður í hálfleik og þá fékk maður aðeins smjörþefinn af þessu. Það var mjög mikilvægt finnst mér að hafa náð þessum mínútum og það var gaman að mæta öðrum Íslendingi, Matthíasi Vilhjálmssyni, leikmanni Vålerenga, í öðru landi. Kórónuveiran var að komast á flug í Evrópu á þessum tíma en maður átti ekki alveg von á því að þetta myndi gerast svona hrikalega hratt. Til stóð að deildin myndi hefjast í gær (á laugardaginn) en eins og staðan er í dag er algjörlega óráðið hvenær við byrjum að spila.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »