Reyndi að skóla Neymar til

Neymar oft komist í fréttirnir fyrir misgáfuleg afrek utan vallar.
Neymar oft komist í fréttirnir fyrir misgáfuleg afrek utan vallar. AFP

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Arthur Coimbra, betur þekktur sem Zico, reyndi að skóla Neymar til á dögunum en Zico greindi sjálfur frá þessu í samtali við ítalska fjölmiðla. Zico spilaði á þremur heimsmeistaramótum með Brasilíu, árin 1978, 1982 og 1986, en hann skoraði 48 mörk á tíu ára landsliðsferli sínum og er fjórði markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.

„Ég er mjög hrifinn af Neymar sem knattspyrnumanni,“ sagði Zico í samtali við Gazetta dello Sport. „Það eru fáir leikmenn eins og hann í heiminum í dag og það er í raun ótrúlegt að fylgjast með honum á vellinum. Hann verður hins vegar að sýna meiri fagmennsku utan vallar líkt og Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa gert.“

„Messi og Ronaldo hugsa fyrst og fremst um fótbolta á meðan Neymar hefur kannski verið meira í umræðunni fyrir afrek sín utan vallar. Ég ræddi við hann á dögunum og bað hann vinsamlegast um að sýna meiri fagmennsku utan vallar. Hann er orðinn 28 ára gamall og spilar með einu besta liði heims.“

„PSG er með lið sem getur unnið Meistaradeildina en ef það á að gerast þarf leikmaður eins og Neymar að einbeita sér fyrst og fremst að fótboltanum. Neymar hefur hins vegar þroskast mikið sem bæði leikmaður og manneskja síðan hann gekk til liðs við PSG og núna þarf hann að ná upp stöðugleika,“ bætti Zico við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert