Frakkar sömdu um lækkun og gætu fengið launin síðar

Leikmenn París SG eru væntanlega flestallir í 50 prósenta flokknum.
Leikmenn París SG eru væntanlega flestallir í 50 prósenta flokknum. AFP

Samtök franskra atvinnuknattspyrnumanna hafa komist að samkomulagi við félögin um tímabundna lækkun launa.

Leikmennirnir hafa sjálfir rétt til að hafna lækkuninni en samtökin ganga út frá því að flestallir leikmenn tveggja efstu deildanna í karlaflokki taki þátt í henni. Lækkunin er í þrepum þar sem þeir launahæstu fá aðeins 50 prósent útborgað í lok apríl og aðrir gefa eftir 40 prósent, 30 prósent eða 20 prósent, eftir því hver laun þeirra eru.

Um leið tryggja félögin að ef þau fá greiddar þær sjónvarpstekjur sem til stóð að þau fengju áður en öllu var lokað vegna kórónuveirunnar verða launin greidd til baka að fullu.

mbl.is