Drullaði yfir liðsfélagana í 90 mínútur

Zlatan Ibrahimovic er skrautleg týpa.
Zlatan Ibrahimovic er skrautleg týpa. AFP

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic gerði lítið annað en að drulla yfir hrædda liðsfélaga sína í leik með Los Angeles Galaxy að sögn Florians Jungwirths, leikmanns San Jose Earthquakes, en hann mætti Zlatan og félögum í LA Galaxy á fyrri leiktíð Svíans í Bandaríkjunum.

Ibrahimovic var í tvö tímabil með Galaxy í Bandaríkjunum, áður en hann fór til AC Mílan í janúar. Þjóðverjinn Jungwirth var spurður út í þá reynslu að mæta Zlatan, en hann leyfði aðdáendum að spyrja sig spurninga á Twitter.

„Ég mæti Zlatan fyrst árið 2018 og hann gerði lítið annað en að drulla yfir liðsfélaga sína, sem voru skíthræddir við hann. Hann var öskrandi þá í 90 mínútur og það var fyndið. Hann var eins og pabbi að skamma börnin sín,“ rifjar Jungwirth upp. 

Hann passaði sig sjálfur að gefa Zlatan ekki færi á að rífast við sig. „Ég forðaðist að rífast við hann, því það hefði bara kveikt í honum,“ sagði Þjóðverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert