Ronaldo gæti verið á förum frá Juventus

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Cristiano Ronaldo heldur opnum þeim möguleika að yfirgefa Juventus á Ítalíu og snúa aftur til Real Madríd á Spáni en liðsfélagi hans í portúgalska landsliðinu segir frá þessu.

Ítalskir fjölmiðlar telja að Juventus væri tilbúið að selja kappann aftur til Real fyrir um 60 milljónir punda til að rétta af fjárhagsstöðu liðsins sem er erfið vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina.

„Ég veit að hann elskar Madríd og hann elskar félagið, það er eitt það stærsta í heiminum, ef ekki það allra stærsta,“ sagði José Fonte, samherji Ronaldo í landsliðinu, í viðtali við talkSPORT.

„Hann á marga vini þar og skildi dyrnar eftir opnar svo hann gæti snúið aftur. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann fer aftur til Real Madríd.“

Ronaldo spilaði í spænsku höfuðborginni í níu ár og hjálpaði Real að vinna Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum ásamt því að verða markahæsti leikmaður félagsins, með 450 mörk, áður en hann færði sig um set og gekk til liðs við Juventus sumarið 2018. Hann hefur skorað 53 mörk í 75 leikjum fyrir ítölsku meistaranna en hann hefur verið valinn besti leikmaður heims fimm sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert