Þjóðverjinn íhugaði að skipta um félag

Thom­as Müller.
Thom­as Müller. AFP

Thom­as Müller, leikmaður þýska knatt­spyrnuliðsins Bayern München, viðurkennir að hann hafi íhugað að yfirgefa félagið á meðan Niko Kovac stýrði liðinu. Müller hefur gengið töluvert betur eftir að Hansi Flick tók við af Króatanum í nóvember. 

Müller, sem framlengdi samning sinn við Bayern til ársins 2023 á dögunum, segist ekki hafa verið að spá í framlengingu á meðan að Kovac var við stjórn, en sóknarmaðurinn hefur skorað 195 mörk í 521 leik með liðinu. 

„Í haust var ég ekki í byrjunarliðinu í sex leikjum í röð og það var erfitt og auðvitað íhugaði ég næsta skref. Ég var alls ekki að hugsa um að framlengja samninginn og ég var byrjaður að líta í kringum mig,“ sagði Müller á fjarblaðamannafundi í kjölfar þess að hann framlengdi. 

Müller hefur spilað sérlega vel eftir að Flick tók við og skorað sex mörk og lagt upp tólf í fimmtán deildarleikjum undir stjórn landa síns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert