Allt komið í háaloft hjá Barcelona – sex farnir

Barcelona er á toppi spænsku 1. deildarinnar en nú er …
Barcelona er á toppi spænsku 1. deildarinnar en nú er allt í hers höndum í stjórn félagsins. AFP

Allt er komið upp í loft í katalónska knattspyrnufélaginu Barcelona eftir að sex stjórnarmenn sögðu af sér í morgun.

Ástæðan er hvernig félagið brást við hneykslismáli á samfélagsmiðlum og hvernig staðið hefur verið að fjárhagsmálum félagsins í kórónuveirukreppunni.

Tveir af fjórum varaforsetum Barcelona sögðu af sér, þeir Emili Rosaud og Enrique Tombas, ásamt fjórum stjórnarmönnum.

Í bréfi til stuðningsmanna beinast ásakanir sexmenninganna að forseta félagsins, Josep Maria Bartomeu, og þeir efast um hæfni stjórnarinnar til að leysa úr flækjum í kjölfar kórónuveirunnar sem hefur skert verulega peningaflæðið í félaginu ásamt því að laun allra leikmanna voru skorin niður um 70 prósent.

„Við erum komin í þessa stöðu vegna þess að við getum ekki breytt stjórnarháttum félagsins á tímum þegar gríðarlegar áskoranir blasa við, sérstaklega þegar farsóttin verður gengin yfir. Við viljum líka lýsa yfir vonbrigðum með hinn óheppilega leikþátt á samfélagsmiðlunum, sem er kallaður Barcagate, og við fréttum af í gegnum fjölmiðla,“ segir í yfirlýsingu sexmenningana sem birtist í spænskum fjölmiðlum í dag.

„Okkar síðasta verk fyrir félagið var að óska eftir því að boðað verði til stjórnarkosninga eins fljótt og aðstæður leyfa þannig að hægt verði að stýra félaginu á bestan mögulega hátt og takast á við þær mikilvægu áskoranir sem blasa við,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is