Íslenski burðarásinn í liðinu

Guðlaugur Victor Pálsson og Blaise Matuidi í leik Íslands og …
Guðlaugur Victor Pálsson og Blaise Matuidi í leik Íslands og Frakklands síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið besti leikmaður þýska B-deildarliðsins Darmstadt á yfirstandandi keppnistímabili, að mati knattspyrnutímaritsins Kicker.

Í dag fer Kicker yfir B-deildina og tekur út einn leikmann úr hverju liði sem metinn er sem lykilmaður liðsins. Hjá Darmstadt er það Victor sem fær þessa umsögn:

„Victor er burðarásinn á miðjunni hjá Darmstadt. Þessi 28 ára gamli Íslendingur er yfirvegaður er bæði með mikla hlaupagetu og er öflugur í návígjum, auk þess sem hann tekur  góðan þátt í sóknarleiknum. Í leikaðferðinni 4-2-3-1 er spurningin fyrst og fremst hver spilar við hlið hans hverju sinni, baráttujaxlinn Yannick Stark eða hinn sóknarþenkjandi Seung-Ho Paik.“

Darmstadt er í sjötta sæti B-deildarinnar þegar níu umferðum er ólokið og er átta stigum á eftir Hamburger SV sem situr í þriðja sætinu, umspilssæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert