Frönsk stórveldi riða til falls

Leikmenn Marseille fagna marki í deildaleik í vetur. Liðið endaði …
Leikmenn Marseille fagna marki í deildaleik í vetur. Liðið endaði í öðru sæti í frönsku 1. deildinni í vetur, á eftir París SG. AFP

Þrjú af stærstu knattspyrnufélögum Frakklands ramba á barmi gjaldþrots vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu, samkvæmt frétt Mediapart í Frakklandi í dag.

Blaðið segir að Marseille, Bordeaux og Saint-Étienne séu öll afar illa sett þrátt fyrir ráðstafanir frönsku ríkisstjórnarinnar sem veitti félögunum lánaheimildir til að vega upp á móti töpuðum sjónvarpstekjum.

Marseille hefur tíu sinnum orðið franskur meistari, síðast 2010, og tíu sinnum bikarmeistari, og þá vann liðið Meistaradeild Evrópu árið 1993.

Bordeaux hefur sex sinnum orðið franskur meistari, síðast 2009, og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast 2013.

Saint-Étienne hefur tíu sinnum orðið franskur meistari, síðast 1981, og sex sinnum bikarmeistari, og félagið lék til úrslita um Evrópumeistaratitilinn árið 1976 en tapaði þá fyrir Bayern München í úrslitaleik.

Samkvæmt Mediasport töpuðu frönsk knattspyrnufélög 126 milljónum evra á tímabilinu 2018-2019 og eftir að farsóttin stöðvaði allt í marsmánuði eru þau gjörsamlega með bakið upp við vegg.

Frakkar blésu sitt tímabil af strax í mars en þá höfðu verið leiknar 28 umferðir af 38 í 1. deildinni. Marseille varð þar í öðru sæti, tólf stigum á eftir meistaraliði París SG. Bordeaux endaði í 12. sæti og Saint-Étienne endaði í 17. sæti og slapp naumlega við fall.

mbl.is