Mega rífa sögulegan leikvang til grunna

San Siro í Mílanó.
San Siro í Mílanó. AFP

Mílanófélögin AC Milan og Inter hafa fengið leyfi til rífa hinn gamalgróna leikvang San Siro til grunna til að rýma til fyrir nýjum knattspyrnuleikvangi sem félögin ætla að reisa í sameiningu.

Þau hafa fengið grænt ljós frá yfirvöldum um að San Siro sé ekki einstakur varðandi byggingarlag, þannig að skylt sé að varðveita leikvanginn eða hluta hans, en hann var reistur árið 1926 og hefur verið heimavöllur beggja liðanna síðan.

Borgarstjórinn í Mílanó, Giuseppe Sala, er meðal þeirra sem hafa  gagnrýnt áætlanir um að rífa San Siro til grunna og félögin hafa gert áætlanir um að varðveita einhverja hluta hans. Nú liggur hins vegar fyrir að þau þurfa þess ekki.

Nýi leikvangurinn á að rúma 60 þúsund áhorfendur og verður reistur á sama stað og San Siro. Hann á að kosta í kringum 650 milljónir evra og byggingartíminn er áætlaður þrjú ár.

San Siro er einn af frægustu knattspyrnuleikvöngum í Evrópu og meðal þeirra stærstu en hann rúmar tæplega 76 þúsund manns í sæti. Á honum fóru fram þrír leikir í heimsmeistarakeppninni árið 1934, þar unnu m.a. Ítalir sigur á Austurríkismönnum, 1:0, í undanúrslitum. Þar var leikið í lokakeppni EM árið 1980 og sex leikir á heimsmeistaramótinu árið 1990 fóru þar fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert