Daninn sem vildi ekki vera á HM

Daley Blind og Pione Sisto í baráttu um boltann í …
Daley Blind og Pione Sisto í baráttu um boltann í viðureign Manchester United og Midtjylland árið 2016. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Pione Sisto, sem spilar fyrir spænska félagið Celta Vigo, er í ítarlegu viðtali við danska blaðið Politiken í dag. Í viðtalinu kemur fram að hann hafi glímt við þunglyndi undanfarin ár.

„Það er kannski best að lýsa síðustu árum með því að segja þessa sögu: Ég naut þess alls ekki að vera á HM árið 2018. Ég vildi fara heim. Þetta er ekki lygi og segir svolítið hvar ég var niður kominn,” sagði Sisto.

„Ég vildi án gríns bara fara heim. Mér var nákvæmlega sama hvernig hlutirnir gengu hjá okkur. Fyrir mér var allt í lagi að detta úr leik. Þetta var alls ekki nein upplifun fyrir mig, jafnvel þó að þetta hafi átt að vera frábært,” sagði Sisto sem einnig glímdi á þeim tíma við vandamál í einkalífinu sem hann vildi þó ekki fara nánar út í.

„Allir þessir þættir samandregnir gerðu mig þunglyndan. Ég var í ruglinu og vissi ekkert hvað ég átti að gera,” sagði Sisto.

Sisto gekk í raðir Celta frá FC Midtjylland árið 2016 og hefur verið inn og út úr liðinu síðustu ár eftir góða byrjun. Sisto á að baki 21 landsleik fyrir Dani og eitt mark.

Lesa má hluta úr viðtalinu hér.

mbl.is