Dortmund einu stigi á eftir Bayern

Dortmund hafði betur gegn Wolfsburg á útivelli.
Dortmund hafði betur gegn Wolfsburg á útivelli. AFP

Borussia Dortmund er aðeins einu stigi á eftir Bayern München í toppbaráttunni í þýsku 1. deildinni í fótbolta eftir 2:0-útisigur á Wolfsburg í 27. umferðinni í dag. 

Raphaël Guerreiro kom Dortmund yfir á 32. mínútu eftir góðan undirbúning Thorgans Hazards. Hefur Guerreiro skorað þrjú mörk síðan deildin fór af stað á ný. Var staðan í hálfleik 1:0, en Achraf Hakimi tvöfaldaði forskotið á 78. mínútu og þar við sat. 

Bayern leikur við Frankfurt síðar í dag og getur náð fjögurra stiga forskoti á ný, en Bayern er sem stendur með 58 stig og Dortmund 57. 

Leverkusen vann mikilvægan sigur á Mönchengladbach í Evrópubaráttunni.
Leverkusen vann mikilvægan sigur á Mönchengladbach í Evrópubaráttunni. AFP

Þar á eftir kemur Leverkusen með 53 stig eftir sterkan 3:1-útisigur á Borussia Mönchengladbach. Kai Havertz kom Leverkusen tvisvar yfir á milli þess sem Marcus Thuram jafnaði fyrir Gladbach. Hefur Havertz skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum. Sven Bender gulltryggði 3:1-sigur Leverkusen undir lokin. Gladbach er í fjórða sæti með 52 stig. 

Samúel Kári Friðjónsson lék ekki með Paderborn vegna meðsla í 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Hoffenheim. Gestirnir komust yfir strax á fjórðu mínútu með marki Roberts Skov, en Dennis Srbeny jafnaði á 9. mínútu og þar við sat. Paderborn er í neðsta sæti með 18 stig, fimm stigum frá fallumspilssæti. 

Þá vann Werder Bremen gríðarlega mikilvægan 1:0-sigur á Freiburg á útivelli. Leonardo Bittencourt skoraði sigurmarkið á 19. mínútu. Þrátt fyrir mikla pressu frá Freiburg tókst liðinu ekki að jafna. Bremen er í næstneðsta sæti með 21 stig. 

Werder Bremen náði í þrjú mikilvæg stig í botnbaráttunni.
Werder Bremen náði í þrjú mikilvæg stig í botnbaráttunni. AFP
mbl.is