Staðfesta brottför Götze

Mario Götze er á förum frá Dortmund.
Mario Götze er á förum frá Dortmund. AFP

Michael Zorc, yfirmaður íþróttamála hjá þýska knattspyrnuliðinu Dortmund, hefur staðfest að Mario Götze muni yfirgefa félagið í sumar. Þetta kemur fram á Twitter-reikningi Dortmund:

„Mario Götze mun yfirgefa okkur í sumar. Ákvörðunin var tekin í sameiningu og af gagnkvæmri virðingu. Mario er frábær einstaklingur,“ var haft eftir Zorc.

Götze hefur að undanskildum þremur árum hjá Bayern München spilað allan sinn feril hjá Dortmund.

Á þessari leiktíð hefur spiltími kappans orðið minni en fyrr í dag sagði Lucien Favre, að Götze henti ekki leikstíl liðsins.

Samningur Götze rennur út í sumar og þar með getur hann farið á frjálsri sölu á sinn næsta áfangastað en hann verður 28 ára gamall í júní.

mbl.is