Hentar United betur en Liverpool

Timo Werner fagnar marki í dag en hann skoraði þrennu …
Timo Werner fagnar marki í dag en hann skoraði þrennu gegn Mainz. AFP

Timo Werner, fram­herji þýska knatt­spyrnu­fé­lags­ins RB Leipzig, ætti að ganga til liðs við Manchester United frekar en Liverpool í sumar en hann hefur mikið verið orðaður við félagið frá Bítlaborginni undanfarna mánuði.

Li­verpool var í viðræðum við Leipzig um að virkja klásúlu í samn­ingi leik­manns­ins þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn blossaði upp í Evr­ópu og setti því fé­laga­skipt­in úr skorðum í leiðinni. Þá hefur Werner verið orðaður við skipti til Bayern München en hann er einn eftirsóttasti framherji Evrópu þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall.

Engu að síður ætti hann að ganga til liðs við Manchester United, að mati Owen Hargreaves sem spilaði með bæði Bayern og United á sínum ferli. „Hann sparkar ekki Roberto Firmino út úr liði Liverpool,“ sagði Hargreaves á BT Sport í dag um Werner sem skoraði þrennu gegn Mainz í þýsku 1. deildinni.

„Hvert sem hann fer, hann verður að spila reglulega. Hann myndi henta leikstíl United, þá vantar alvöruníu. Firmino er of góður til að honum verði steypt af stóli í liði Liverpool.“ Firmino hefur komið við sögu í 15 mörkum Liverpool sem situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Werner hefur komið við sögu í 31 marki hjá Leipzig í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert