Neita að hefja leikina of snemma

Ítalir vonast til að geta leikið á ný snemma í …
Ítalir vonast til að geta leikið á ný snemma í júnímánuði. AFP

Ítalskir knattspyrnumenn vilja ekki hefja leiki í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í sumar um miðjan dag eða síðdegis vegna of mikils hita.

Leikið verður þétt þegar keppni hefst á ný en stefnt er að því að halda áfram með deildina snemma í júní. Lagt hefur verið til að leikið verði á þrennum tímasetningum, kl. 16.30, 18.45 og 21.00 að staðartíma en leikirnir verða allir án áhorfenda og sýndir beint í sjónvarpi.

Leikmannasamtökin hafa hafnað því að hefja leiki kl. 16.30 að sumarlagi (14.30 að íslenskum tíma) þar sem of heitt sé á þeim tíma til að spila. Hinar tvær tímasetningarnar séu í lagi.

„Það er útilokað að spila klukkan 16.30 um hásumarið, í júní og júlí. Forsetar félaganna verða að gæta að heilsu og öryggi leikmannanna, ekki bara áhorfstölum og sjónvarpsrétti. Við erum til í að spila 18.45 og 21.00,“ sagði Umberto Calcagno, varaforseti leikmannasamtakanna, við ítalska dagblaðið La Repubblica.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert