Fótboltinn þarf launaþak

Kylian Mbappé er á meðal launahæstu leikmanna heims.
Kylian Mbappé er á meðal launahæstu leikmanna heims. AFP

Setja þarf launaþak á stærstu knattspyrnudeildirnar í Evrópu til þess að félögin verði ekki gjaldþrota vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði.

Nokkrir eigendur knattspyrnufélaga á Englandi, til að mynda Phil Hodgkinson sem á Huddersfield, og stjórnmálamenn víða um Evrópu tala fyrir þessari breytingu. Allt að sex­tíu knatt­spyrnu­fé­lög á Englandi gætu orðið gjaldþrota samkvæmt Hodgkinson, nema breytingar verði á rekstri félaganna.

„Það eru fé­lög sem eru aðeins á lífi vegna þess að þau hafa getað frestað launa­greiðslum. Þau munu þurfa að greiða á ein­hverj­um tíma­punkti,“ sagði Hod­gkin­son en Hudders­field spil­ar í B-deild­inni.

Þá spáir franski stjórn­mála­maður­inn Daniel Cohn-Bendit því að markaðsvirði knattspyrnumanna muni hríðfalla á næstu mánuðum og árum. „Kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn mun af­nema þann fá­rán­leika sem ríkt hef­ur í af­reksíþrótt­um á und­an­förn­um árum,“ skrifaði Cohn-Bendit. „Við get­um horft á þetta þannig að hér hafi átt sér stað kjarn­orku­árás og núna þurf­um við að byggja upp allt frá grunni. Á morg­un mun Kyli­an Mbappé kosta 40 millj­ón­ir evra, ekki 200 millj­ón­ir, en hver get­ur keypt hann?

Ein­hver lið munu verða gjaldþrota, það er al­gjör­lega óumflýj­an­legt. Það gæti vel farið svo að ákveðið launaþak yrði sett á í Evr­ópu. Við þurf­um að setja ein­hver tak­mörk og draga úr áhrif­um umboðsmanna á íþrótt­ina sem hafa keyrt bæði verð og laun upp úr öllu valdi. Knatt­spyrnu­menn munu ekki spila verr þótt þeir lækki í laun­um,“ bætti Cohn-Bendit við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert