Leyfa áhorfendur á leikjum sínum

Aron Bjarnason í leik með Újpest.
Aron Bjarnason í leik með Újpest. Ljósmynd/Újpest

Ungverska knattspyrnan hefur göngu sína á nýjan leik á morgun og verður deildin þar í landi sú fyrsta til að leyfa áhorfendur eftir að fresta þurfti nær öllu mótahaldi í Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins.

Þýska deildin hóf göngu sína fyrir tæpum tveimur vikum og í Danmörku byrjar fótboltinn í dag en engir áhorfendur eru leyfðir á leikjunum. Þá mun enska úrvalsdeildin fara af stað í næsta mánuði en allir leikir verða spilaðir fyrir luktum dyrum. Ungversk yfirvöld ætla hins vegar að leyfa áhorfendur með takmörkunum.

Þrjú auð sæti verða að vera á milli áhorfenda og þá verður sætið beint fyrir aftan hvern og einn að vera autt, því má aðeins selja í fjórða hvert sæti. Í samantekt frá ungverska miðlinum 444 kemur fram að þetta ætti í raun engu að breyta fyrir félögin í efstu deild þar í landi. Það er uppselt á sárafáa leiki í Ungverjalandi á hverju tímabili og að meðaltali selst einmitt bara fjórða hvert sæti.

Íslendingurinn Aron Bjarnason var á mála hjá liði Újpest í Ungverjalandi í byrjun tímabils en sneri aftur heim og samdi við Val í byrjun mánaðarins.

mbl.is