Handtekinn í tengslum við vændis- og eiturlyfjahring

Slavko Vincic.
Slavko Vincic. Ljósmynd/FIFA

Slóvenski knattspyrnudómarinn Slavko Vincic, sem hefur m.a. dæmt í Meistaradeild Evrópu, var handtekinn um helgina í tengslum við vændis- og eiturlyfjahring í Bosníu. 

Lögregla réðst inn í kofa í Bijeljina í austurhluta Bosníu við landamæri Serbíu og fann þar mikið af vopnum og kókaíni. Var Vincic þar gestkomandi. 

Slóveninn var yfirheyrður en síðan sleppt. Sagði hann í samtali við fjölmiðla í heimalandinu að hann hafi verið rangur maður á röngum tíma, en hann hefur snúið aftur til Slóveníu eftir atvikið. 

Hefur Vincic m.a. dæmt leiki með Liverpool og Manchester City í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

mbl.is