Markamet hjá Þjóðverjanum eftirsótta

Kai Havertz í leiknum gegn Freiburg í gær.
Kai Havertz í leiknum gegn Freiburg í gær. AFP

Miðjumaðurinn Kai Havertz hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Leverkusen í þýsku efstu deildinni í knattspyrnu undanfarið og í gær sló hann ótrúlegt met. Þjóðverjinn ungi er fyrsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora 35 mörk áður en hann verður 21 árs.

Hann skoraði sigurmark Leverkusen í 1:0-sigri á Freiburg og skaut liði sínu upp í 3. sæti deildarinnar. Havertz, sem er tvítugur, er gríðarlega eftirsóttur af mörgum af stærstu félögum Evrópu. Bayern München og Borussia Dort­mund hafa áhuga á honum í heimalandinu og þá er hann reglulega orðaður við Manchester United og Liverpool á Englandi. Hann er búinn að skora 11 mörk í 26 deildarleikjum á þessari leiktíð en deildarmörkin 35 komu í 114 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert