Ronaldo er ekki nálægt Messi

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. AFP

Deilan um hvor sé betri fótboltamaður; Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi, hefur verið í gangi í áratug og skiptast áhugamenn um íþróttina góðu gjarnan í tvær fylkingar hvað þetta viðkvæma mál varðar. Sparkspekingurinn Gary Lineker, sem átti farsælan fótboltaferil sjálfur, segir hins vegar að þetta sé ekki einu sinni spurning.

Messi og Ronaldo hafa klárlega verið afbragðsleikmenn um árabil, annar þeirra hefur verið valinn besti leikmaður heims í 11 af síðustu 12 skiptum. Messi hefur unnið allt sem hægt er að vinna yfir glæstan feril hjá Barcelona en hann verður 33 ára bráðlega. Ronaldo, 35 ára, hefur komið víða við og unnið titla hjá Manchester United, Real Madríd og Juventus.

„Fólk skiptist í ættbálka og deilir um ótrúlegustu hluti, Messi eða Ronaldo er einn þeirra,“ sagði Lineker á BBC en hann spilaði með Barcelona um tíma og átti farsælan feril með enska landsliðinu.

„Oft snýst þetta um með hvaða liði þú heldur, sem ég skil. Ronaldo er frábær leikmaður, auðvitað, en ef við erum að tala um besta leikmann í heimi. Þetta er ekki spurning, Messi er bestur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert