Englendingurinn sá um botnliðið

Jadon Sancho tileinkaði George Floyd fyrsta markið sitt.
Jadon Sancho tileinkaði George Floyd fyrsta markið sitt. AFP

Dortmund minnkaði forskot Bayern München á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta niður í sjö stig á nýjan leik með sannfærandi 6:1-útisigri á Paderborn í dag. 

Englendingurinn Jadon Sancho var í byrjunarliði Dortmund í fyrsta skipti eftir kórónuveirufrí og hann þakkaði heldur betur fyrir traustið og skoraði þrennu, en öll mörk leiksins komu í seinni hálfleik. 

Thorgan Hazard og Sancho komu Dortmund í 2:0 snemma í seinni hálfleik áður en Uwe Hünemeier minnkaði muninn með marki úr víti á 72. mínútu. Tveimur mínútum síðar var aftur komið að Sancho og staðan orðin 3:1. 

Achraf Hakimi og Marcel Schmelzer bættu við fjórða og fimmta marki Dortmund undir lokin, áður en Sancho fullkomnaði þrennuna með marki í uppbótartíma. 

Bayern er með 67 stig í toppsætinu og Dortmund í öðru sæti með 60 stig. Paderborn er í neðsta sæti með aðeins 19 stig og í gríðarlega erfiðri stöðu. Samúel Kári Friðjónsson lék ekki með Paderborn vegna meiðsla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert