Fótboltinn verður aldrei aftur sá sami

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Fótboltinn, eins og lífið sjálft, verður aldrei sá sami í kjölfar kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði en stórstjarnan Lionel Messi, leikmaður Barcelona, ræddi um veiruna í viðtali við El Pais.

„Flest okkar hafa efasemdir um hvernig heimurinn verður eftir á. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt fyrir svona marga, sem hafa misst fjölskyldu og ástvini,“ sagði Messi sem hefur margoft verið valinn besti knattspyrnumaður heims.

„Að missa fólkið sem þú elskar heitast er það versta og það ósanngjarnasta í þessu öllu,“ bætti hann við en veiran hefur leikið Spánverja grátt. Yfir 280 þúsund smit hafa greinst í landinu og þá hafa 27 þúsund manns látið lífið.

Í heimalandi Argentínumannsins hafa 528 látið lífið og þá hefur veiran haft gríðarlega slæm áhrif á landið fjárhagslega en Messi hefur gefið mikla peninga til góðgerða undanfarið. Spænski boltinn mun svo hefja göngu sína á ný 11. júní næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert