Vilja halda leikmanni United lengur

Alexis Sánchez hefur ekki náð sér á strik á Ítalíu.
Alexis Sánchez hefur ekki náð sér á strik á Ítalíu. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Inter Mílano vill halda Sílemanninum Álexis Sánchez út leiktíðina, en lánssamningur hans við félagið rennur út 30. júní.

Vegna kórónuveirunnar tekst ekki að klára tímabilið á Ítalíu áður en samningurinn rennur út og vill Inter því framlengja. 

Inter greiðir um fjórðung af vikulaunum Sánchez, en hann er á himinháum launum hjá Manchester United. Skoraði Sánchez aðeins fimm mörk í 45 leikjum með United og var félagið því reiðubúið að láta hann fara til Ítalíu. 

Ekki hefur hann heldur slegið í gegn á Ítalíu og verið mikið frá vegna meiðsla og aðeins skorað eitt mark í níu deildarleikjum. Þrátt fyrir það vill ítalska félagið halda honum. 

Piero Ausilio íþróttastjóri félagsins staðfesti þetta við Sky á Ítalíu. Verður að teljast afar ólíklegt að Manchester United kalli Sílemanninn áður en tímabilið klárast og verður hann því að öllum líkindum í herbúðum Inter til loka leiktíðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert