Bað um skiptingu eftir kortér

Lionel Messi hefur leikið með Barcelona allan sinn feril.
Lionel Messi hefur leikið með Barcelona allan sinn feril. AFP

Alessandro Costacurta, fyrrverandi leikmaður ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, var í skemmtilegu viðtali við spænska miðilinn Marca á dögunum. Costacurta lék með AC Milan allan sinn feril en hann lagði skóna á hilluna árið 2007 eftir 21 árs feril þar sem hann spilaði 458 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

Costacurta mætti Lionel Messi, fyrirliða Barcelona, eitt sinn á knattspyrnuvellinum en argentínski knattspyrnumaðurinn sem hefur sex sinnum verið kjörinn besti leikmaður heims var einungis sextán ára gamall á þessum tíma. „Ég mætti Messi þegar hann var sextán ára gamall og hann gerði nákvæmlega það sem hann vildi á vellinum,“ sagði Costacurta í samtali við Marca.

„Eftir fimmtán mínútna leik fékk ég nóg og bað Carlo Ancelotti, þáverandi stjóra Milan, um að taka mig af velli,“ bætti varnarmaðurinn fyrrverandi við. Messi lék sinn fyrsta keppnisleik fyrir Barcelona árið 2004, hann verður 33 ára gamall í júní og er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert