Hefur fundið sér nýtt félag

Saúl Níguez hefur fundið sér nýtt félag samkvæmt Twitter-síðu leikmannsins.
Saúl Níguez hefur fundið sér nýtt félag samkvæmt Twitter-síðu leikmannsins. AFP

Saúl Níguez, miðjumaður spænska knattspyrnufélagsins Atlético Madrid, gæti verið á förum frá félaginu í sumar en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Níguez, sem hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarin ár setti inn áhugaverða Twitter-færslu í gær þar sem hann sagði fylgjendum sínum að hann væri að skipta um félag.

Þá tók hann jafnframt fram að tilkynnt yrði um félagaskiptin á miðvikudaginn næsta en Níguez er 25 ára gamall og alinn upp í herbúðum Atlético Madrid. Þá á hann að baki 19 landsleiki fyrir Spán en hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir þjóðina árið 2016. Í þessum nítján landsleikjum hefur hann skorað þrjú mörk.

Níguez hefur einnig verið orðaður við bæði Real Madrid og Barcelona á Spáni en fari svo að hann yfirgefi félagið í sumar verður hann annar lykilmaðurinn sem fer frá félaginu á stuttum tíma því Antoine Griezmann yfirgaf Atlético Madrid einnig síðasta sumar þegar hann samdi við Barcelona. Níguez er verðmetinn á 72 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert