Hópurinn aldrei litið betur út

Elísabet Gunnarsdóttir hefur stýrt liði Kristianstad frá árinu 2009.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur stýrt liði Kristianstad frá árinu 2009. Ljósmynd/Kristianstad

Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir er á leið inn í sitt tólfta tímabil hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Kristianstad. Kristianstad endaði í sjöunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð sem þóttu vonbrigði þar á bæ. Þjálfarinn hefur hins vegar styrkt hópinn hjá sér fyrir komandi tímabil en hún var í áhugaverðu viðtali við sænska miðilinn Expressen í gær.

„Ég er full tilhlökkunar og það verður áhugavert að takast á við þétt leikjaplan næstu vikna,“ sagði Elísabet í samtali við Expressen. „Ég er virkilega ánægð með leikmannahóp Kristianstad og hann hefur aldrei litið betur út. Við erum með 21 leikmann sem eru allir á svipuðum stað og það verður ansi krefjandi verkefni að velja byrjunarliðið í næstu leikjum.

Við snerum aftur til æfinga í mars og þá gerðum við ráð fyrir því að tímabilið myndi fara af stað í júní eða júlí. Til stendur að hefja leik í júní og liðið er því í mjög góðu standi og tilbúið fyrir tímabilið. Við vorum ekki sáttar við hvernig síðasta tímabil fór og markmiðið í ár er að gera betur og berjast í efri hluta deildarinnar,“ bætti Elísabet við en til stendur að hefja leik í Svíþjóð helgina 27.-28. júní.

mbl.is