Áfram í undanúrslit eftir sigur í framlengingu

Sandra María Jessen
Sandra María Jessen

Sandra María Jessen og stöllur í Leverkusen eru komnar í undanúrslit í þýska bikarnum í knattspyrnu eftir 3:2-sigur á Hoffenheim í framlengingu í dag.

Þetta var annar leikur liðsins eftir að þýski boltinn hóf göngu sína á ný í kjölfar kórónuveirufaraldursins en Leverkusen tapaði gegn Duisburg í deildinni um helgina. Sandra María var í byrjunarliðinu í dag og spilaði allar 120 mínútur en staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma. Heimakonur skoruðu svo tvö fyrstu mörkin í framlengingu áður en gestirnir klóruðu í bakkann í blálokin.

Sandra María sjálf reynd­ist hetja Le­verku­sen í 16-liða úrslitunum í nóvember er hún skoraði sigurmark liðsins gegn Frankfurt. Liðið mætir annað hvort Potsdam eða Essen í undanúrslitum. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir sækir Gütersloh heim með liði sínu Wolfsburg á morgun í 8-liða úrslitum en Íslendingarnir gætu mæst í úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert