Ákvörðun sem lætur Frakka líta út eins og útlaga

Neymar og Kylian Mbappé fóru snemma í sumarfrí vegna kórónuveirufaraldursins.
Neymar og Kylian Mbappé fóru snemma í sumarfrí vegna kórónuveirufaraldursins. AFP

Gérard Lopez, eigandi franska knattspyrnufélagsins Lille, segir að Frakkar hafi gert mistök með því að aflýsa tímabilinu í frönsku 1. deildinni vegna kórónuveirufaraldursins. Af fimm stærstu deildum Evrópu voru Frakkar þeir einu sem ákváðu að blása tímabilið af en Þjóðverjar byrjuðu að spila á nýjan leik um miðjan maí. Þá stefna Englendingar, Ítalir og Spánverjar allir á að hefja leik í kringum 20. júní.

„Þessi ákvörðun, sem var að öllum líkindum tekin í fljótfærni, lætur Frakka líta illa út,“ sagði Lopez í samtali við Sportsmail. „Það er eins og fótboltinn skipti Frakkana engu máli á meðan stjórnmálamenn í öðrum löndum hafa verið óhræddir við að stíga fram og lýsa því yfir opinberlega að fótboltinn skipti fólkið í landinu gríðarlega miklu máli.

Það er eins og Frakkar séu útlagar og að það sé eitthvað meira að í landinu en annars staðar. Það bíða allir aðrir með öndina í hálsinum eftir að fótboltinn snúi aftur og það er mikil tilhlökkun í löndunum í kringum okkur. Í Frakklandi er eins og fótboltinn sé ekki biðarinnar virði og það hryggir mann,“ bætti Lopez við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert