Ætlaði að reka stjóranum hnefahögg

Jerzy Dudek og Rafael Benítez kvöldið fyrir leikinn ótrúlega árið …
Jerzy Dudek og Rafael Benítez kvöldið fyrir leikinn ótrúlega árið 2005. AFP

Jerzey Dudek, fyrrverandi markvörður Liverpool, var hársbreidd frá því að leggja hendur á þáverandi knattspyrnustjóra sinn, Rafael Benítez, þegar hann frétti að honum ætti að skipta út sem aðalmarkverði liðsins.

Dudek vann sér sess í hjörtum Liverpool-manna árið 2005 þegar hann var hetja liðsins í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn AC Milan í Istanbúl í Tyrklandi. Pólverjinn fékk á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik en, eftir að samherjar hans jöfnuðu metin og kreistu framlengingu, varði hann tvisvar í vítaspyrnukeppninni.

Sumarið eftir festi Benítez kaup á Spánverjanum Pepe Reina og gerði samlanda sinn að markverði númer eitt, ákvörðun sem gerði Dudek einkar gramt í geði. „Pepe var frábær náungi en Rafa keypti hann, nýjan markvörð, þegar ég var á toppi ferilsins,“ sagði Dudek í viðtali við FourFourTwo um helgina en hann hafði svipaða sögu að segja í ævisögu sinni fyrir nokkrum árum.

„Ég var hetj­an í Ist­an­b­ul og ég trúði því ekki að ég ætti í kjöl­farið að vera vara­markvörður sem ætti að vera til taks. Ég var al­ger­lega brjálaður út í Benitez og það var djöf­ul­leg rödd í höfði mínu sem hvatti mig til þess að kýla hann í and­litið. Sem bet­ur fer lét ég ekki verða af því, það hefði lík­lega ekki litið vel út á fer­il­skránni,“ sagði Dudek í ævi­sögu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert