Real Madrid blandar sér í baráttuna

Jadon Sancho er eftirsóttur.
Jadon Sancho er eftirsóttur. AFP

Jadon Sancho, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, er eftirsóttur af stórliðum í sumar en hann hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í allan vetur. Enskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Sancho hefði náð munnlegu samkomulagi við United en Dortmund og enska félagið ættu ennþá eftir að semja um kaupverðið á leikmanninum.

Sancho er  einungis tvítugur að árum en hann hefur skorað 17 mörk og lagt upp önnur sextán í 27 leikjum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu, þrátt fyrir að spila sem kantmaður. Sancho er metinn á 100 milljónir evra en vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins eru ekki mörg lið í heiminum í dag sem hafa efni á því að kaupa leikmanninn af Dortmund.

Stórlið Real Madrid á Spáni hefur hins vegar blandað sér í baráttuna um leikmanninn samkvæmt spænska miðlinum AS. Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, er sagður mikill aðdáandi leikmannsins sem er uppalinn hjá Manchester City á Englandi og á að baki ellefu landsleiki fyrir Englendinga þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

mbl.is