Vill ekki fá starf bara af því að hún er kona

Elísabet Gunnarsdóttir hefur stýrt liði Kristianstad í Svíþjóð frá 2009.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur stýrt liði Kristianstad í Svíþjóð frá 2009. Ljósmynd/@_OBOSDamallsv

Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir þurfti óvænt að taka sér ótímabundið veikindaleyfi vegna ristils sem hún greindist með á dögunum. Ristill er sársaukafullar smáblöðrur af völdum hlaupabólu-ristilveiru, en um er að ræða hálfgerða endurvakningu á hlaupabóluveirunni.

Beta, eins og hún er jafnan kölluð, er 43 ára gömul en hún hefur stýrt liði Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni frá 2009 og er því að hefja tólfta tímabil sitt sem þjálfari liðsins.

„Þetta er veirusjúkdómur sem allir sem hafa fengið hlaupabólu geta fengið,“ sagði Elísabet í samtali við Morgunblaðið. „Þetta er algengara hjá eldra fólki, en ég er búin að vera slöpp undanfarnar tvær vikur. Það er skrýtið að segja frá því að ég lagðist inn á sjúkrahús fyrir tveimur árum með nákvæmlega sömu einkenni og verki. Þá lýsti það sér eins og ég væri að fá blóðtappa og það var það sem læknarnir voru í raun að leita að. Fyrir tveimur vikum byrjaði ég svo að finna fyrir nákvæmlega sömu verkjum og ég hélt að ég væri að fá blóðtappa á nýjan leik.

Þetta lýsir sér fyrst og fremst þannig að ég er bara með bilaða verki, bæði í höfðinu og hálsinum, og alltaf í vinstri hlið líkamans. Hægri hliðin er því fullfrísk, sem er stórfurðulegt. Ég var svo bara inn og út af spítala í einhverja fjóra daga og það fann enginn neitt út úr því sem var að angra mig. Ég gat ekki legið á höfðinu sem dæmi og svaf þess vegna lítið sem ekkert á næturnar. Svo byrja að myndast einhverjar blöðrur á höfðinu á mér og þá átta læknarnir sig á því hvað það er sem er að hrjá mig.“

Óvíst er hvenær þjálfarinn getur snúið aftur á völlinn, þar sem hún þarf að taka því rólega næstu vikurnar.

Röng sjúkdómsgreining

„Vandamálið í þessu öllu saman er að ég fékk ranga sjúkdómsgreiningu til að byrja með og var fyrst sett á pensilín. Vandamálið með svona ristil er að maður þarf að fá rétta meðhöndlun og rétt lyf innan 72 klukkustunda frá því að sjúkdómurinn skýtur upp kollinum til þess að sleppa við þessa taugaverki. Ég fæ svo ekki rétt lyf fyrr en nokkrum dögum síðar og það gerir það að verkum að þessir verkir hafa verið alveg svakalega sárir. Ég er komin á flogaveikilyf núna sem eiga að vinna á þessu og nú er bara að bíða og sjá hversu langan tíma þetta mun taka að jafna sig.

Ég er fín í tvo klukkutíma í senn og svo kannski verð ég afar slæm. Ég má ekki við miklu og ég fór sem dæmi á fund í vikunni ásamt þremur öðrum og var algjörlega búin á því eftir klukkutíma. Ég þarf að vera þolinmóð, reyna að vera í afslöppuðu umhverfi og svo bara hugsa vel um sjálfa mig. Ég hef rætt við marga sem hafa fengið sjúkdóminn, sem og lækna, og það getur tekið mánuð að jafna sig á þessu eða allt upp í tvö ár.“

Bólusett fyrir ristli

Elísabet vonast til þess að komast í bólusetningu fyrir sjúkdómnum þegar hún hefur jafnað sig en það gæti reynst hægara sagt en gert.

„Ég hef rætt við fólk sem hefur fengið ristil tvisvar til þrisvar sinnum yfir ævina og þetta getur blossað upp hvenær sem er þannig lagað. Að sama skapi er til bólusetning við þessu sem byrjaði í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Þú getur hins vegar ekki fengið bólusetningu fyrr en eftir fimmtugt og ég þarf þess vegna helst að fara að falsa einhver skilríki til þess að komast í hana.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að ég er tilbúin að gera allt til þess að sleppa við þessa verki en að sama skapi eru fáir sem fá þetta, sem er jákvætt, og líkurnar á að fá þetta oftar en einu sinni eru mjög litlar.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert