Birkir og félagar komnir lengra en Balotelli sem er á útleið

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli er við það að vera rekinn frá ítalska knattspyrnuliðinu Brescia, en þar er Balotelli á mála ásamt íslenska landsliðsmanninum Birki Bjarnasyni. AFP greinir frá.

Balotelli hefur misst af fjölmörgum æfingum og tók ekki þátt í fjarfundum liðsins í kórónuveirupásunni.

Massimo Cellino, eigandi Brescia, hefur ákveðið að rifta samningnum við hinn 29 ára gamla ítala og fékk Balotelli bréf frá lögfræðingum Brescia þess efnis að því er heimildir Sky Sport, Gazzetta dello Sport og AGI fréttaveitunnar segja.

Balotelli hefur ítrekað misst af æfingum liðsins frá því í byrjun maí.

Sjálfur hefur Balotelli sagst vera veikur og að hann myndi senda læknateymi liðsins vottorð því til sönnunar.

Á föstudag kvaðst þjálfari liðsins Diego Lopez vera vonsvikinn með framkomu Balotelli.

„Mario er að æfa einn þar sem liðsfélagar hans hafa unnið vinnu sem hann hefur ekki gert,” sagði Lopez við Corriere della Sera.

„Einstaklingsæfingarnar voru valkvæðar, allt í lagi. En hópurinn fór aðra leið en hann hina. Við sáum hann ekki á Zoom-fundum í sóttkví. Jafnvel þó að hann segir að sér líði vel þá er hann ekki á sama stigi og liðsfélagar sínir,” segir Lopez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert