Englendingurinn verður að þroskast

Jadon Sancho í leik gegn Hertha Berlín í dag.
Jadon Sancho í leik gegn Hertha Berlín í dag. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Emre Can segir að Jadon Sancho, liðsfélagi sinn hjá Borussia Dortmund, þurfi að þroskast, en Englendingurinn ungi hefur slegið í gegn hjá liðinu og verið orðaður við flest stórlið Evrópu síðustu mánuði. 

Var Sancho sektaður í vikunni þegar myndir af honum í klippingu láku á netið, en hvorki hann né klipparinn voru með andlitsgrímu. Með því braut hann strangar reglur þýsku deildarinnar. Sancho sjálfur var allt annað en sáttur við sektina, sem hann kallaði grín á samfélagsmiðlum. 

„Það þarf að leiðbeina honum aðeins. Hann er frábær strákur, líka utan vallar, og við náum vel saman. Hann þarf bara að vera aðeins skarpari þegar kemur að svona hlutum. Hann hefur ekki efni á að gera svona mistök í framtíðinni,“ sagði Can við Sky í Þýskalandi. 

„Við liðsfélagar hans erum ekki pirraðir út í hann. Við vitum að hann þarf að þroskast og hann veit það sjálfur. Hann reynir ekki að búa til vandræði viljandi, en hann þarf reynslumeiri menn til að leiðbeina sér,“ bætti Can við. 

Hefur Sancho tvívegis misst sæti sitt í byrjunarliðum yngri landsliða Englands fyrir að mæta of seint á æfingar og þá hefur hann verið til vandræða hjá Dortmund en hann kom of seint úr landsliðsverkefni hjá enska landsliðinu á síðasta ári og var sektaður hjá félaginu í kjölfarið. 

mbl.is